SÓN 19

Són 19 er komin út og ratar til áskrifenda sinna á næstu dögum. Són fæst einnig í lausasölu hjá Bóksölu stúdenta.

Heftið inniheldur að þessu sinni eina ritrýnda rannsóknargrein þar sem Haukur Þorgeirsson fjallar um rímur, aldur þeirra og höfunda. Einnig eru birtar fjórar umræðugreinar og spanna þær breitt tímasvið frá fornöld til samtíma. Rósa Þorsteinsdóttir fjallar um kveðskap Bjarna Sveinssonar (1813–1889), Ægir Þór Jähnke skrifar um Nóbelsskáldið Louise Glück og list hennar, Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir fjallar um latnesk ljóðabréf eftir rómversku skáldin Sextus Propertius og Publius Ovidius Naso og loks birta Elínrós Þorkelsdóttir og Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir grein um hvernig megi nota ljóð til kennslu í íslensku sem öðru máli, ásamt frumsömdu kennsluefni.

Venju samkvæmt frumbirtir Són ljóð og þýðingar. Frumort ljóð eiga Sigurlín Hermannsdóttir, Tómas Ævar Ólafsson og Stefán Snævarr en finna má nýjar þýðingar Hannesar Péturssonar á ljóði serbneska skáldsins Miodrags Pavlović, Atla Ingólfssonar á ljóði Oceans Vuongs og Erlends S. Eyfjörðs á ljóði Konstantinosar P. Kavafis.

Eins og síðustu ár birtir Són vandaða ritdóma um valdar ljóðabækur sem komu út á árinu 2021.

Loks er Són mikil ánægja að frumbirta glænýtt ljóð eftir Guðrúnu Hannesdóttur sem er Sónarskáldið í ár.

Kápumynd gerði Margrét Rut Eddudóttir.

Greinakall 2021

Són, tímarit um óðfræði og ljóðlist, lýsir eftir efni! Skilafrestur fyrir hefti ársins 2021 er 1. júní. Heftið mun koma út í desember.

Són birtir ritrýndar greinar um allt það er lýtur að rannsóknum á ljóðlist – til dæmis frá sjónarhóli fagurfræði, bragfræði, þýðingafræði, málfræði, hugmyndafræði eða bókmenntasögu. Umfjöllun getur til dæmis verið um einstök skáld, kvæði, þemu, bókmenntastefnur eða tímabil allt frá elstu tíð til líðandi stundar.

Són birtir einnig greinar og pistla sem fara ekki í gegnum ritrýningarferli en birtast undir yfirskriftinni Óðflugur og umræðugreinar. Són birtir jafnframt ritdóma og ritfregnir og vill gjarnan birta umfjöllun um ljóðlist, kveðskap og textagerð líðandi stundar. Són frumbirtir einnig ljóð og ljóðaþýðingar.

Efni í Són er að jafnaði á íslensku en ritrýndum greinum fylgir útdráttur á ensku.

Handrit skulu send ritstjórum:

Árni Davíð Magnússon, arnidavid@gmail.com

Helga Birgisdóttir, helgabi@hi.is

Teresa Dröfn Njarðvík, tdn1@hi.is

Hægt er að gerast áskrifandi að Són með því að senda ritstjórn tölvupóst eða hafa samband á fésbókarsíðu tímaritsins, Són og Boðn. Áskriftargjald er 3990 kr. og fá nýir áskrifendur síðustu tvo árganga Sónar í kaupbæti!

SÓN 18

Són 18 er komin út!

Tímaritið berst áskrifendum á næstu dögum en það má einnig nálgast í lausasölu hjá Bóksölu stúdenta.

Að þessu sinni eru tvær ritrýndar greinar í heftinu. Stefán Snævarr skrifar um ljóð Sigurðar Pálssonar í ljósi tilvistarspekinnar og heimspeki Stanley Cavells, en Hildur Ýr Ísberg fjallar um margræðni Skaða í Eddukvæðum, Snorra-Eddu og Heimskringlu.

Óðflugur og umræðugreinar eru þrjár. Atli Ingólfsson veltir fyrir sér sambandi bragar og tónlistar, Atli Harðarson skrifar um gríska ljóðskáldið Aristóteles Valaoritis og kvæðið um Lýð gamla og byssuna hans og loks fjallar Heimir Pálsson um kvæði Gríms Thomsens, Á Sprengisandi.

Mikill fengur er að þeim ljóðum og þýðingum sem birtast að þessu sinni. Arndís Þórarinsdóttir, Gunnar J. Straumland, Hanna Óladóttir og Ingólfur Eiríksson eiga öll frumort ljóð í heftinu, en finna má þýðingar á ljóðum Hermanns Hesse, Pierre de Ronsard og grænhöfðeysku skáldkonunnar Glóriu Sofiu. Sónarskáldið í ár er Kristín Eiríksdóttir sem frumbirtir glænýtt ljóð í Són 18.

Að venju inniheldur heftið svo yfirgripsmikla ritdóma og umfjallanir um ljóðabækur ársins, en að þessu sinni var fjallað um 13 bækur sem komu út á árinu 2020.

Loks vill ritstjórn Sónar óska lesendum sínum og velunnurum gleðilegs árs, með þökk fyrir stuðninginn á liðnu ári!

Ekkert Boðnarþing í ár

Lengi vonuðumst við til að hægt yrði að halda Boðnarþing í ár en nú er endanlega ljóst að ekki verður af slíku. Næsta þing er þá fyrirhugað vorið 2021. – Stjórn Boðnar

Greinakall 2020

Són lýsir eftir efni! Skilafrestur fyrir hefti ársins 2020 er 15. apríl fyrir ritrýndar greinar en 15. maí fyrir annað efni. Heftið mun koma út í desember.

Són birtir ritrýndar greinar um allt það er lýtur að rannsóknum á ljóðlist – til dæmis frá sjónarhóli fagurfræði, bragfræði, þýðingafræði, málfræði, hugmyndafræði eða bókmenntasögu. Umfjöllun getur til dæmis verið um einstök skáld, kvæði, þemu, bókmenntastefnur eða tímabil allt frá elstu tíð til líðandi stundar.

Són birtir einnig greinar og pistla sem fara ekki í gegnum ritrýningarferli en birtast undir yfirskriftinni Óðflugur og umræðugreinar.

Són birtir jafnframt ritdóma og ritfregnir og vill gjarnan birta umfjöllun um ljóðlist, kveðskap og textagerð líðandi stundar.

Efni í Són er að jafnaði á íslensku en ritrýndum greinum fylgir útdráttur á ensku.

Handrit skulu send ritstjórum:
Árni Davíð Magnússon, adm4@hi.is
Helga Birgisdóttir, helgabi@hi.is
Kristján Árnason, kristarn@hi.is
Teresa Dröfn Njarðvík, tdn1@hi.is

Ný stjórn og ný ritstjórn

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Boðnar 16. janúar 2020. Stjórnin hefur skipt með sér verkum á eftirfarandi hátt:

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, formaður
Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, ritari
Haukur Þorgeirsson, gjaldkeri
Árni Davíð Magnússon
Pétur Húni Björnsson

Ný ritstjórn Sónar er eftirfarandi:

Árni Davíð Magnússon
Helga Birgisdóttir
Kristján Árnason
Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík

Aðalfundur Boðnar 2020

Aðalfundur Boðnar verður haldinn fimmtudaginn 16. janúar klukkan 14:00 í Hámu. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf skv. 6. grein laga félagsins.

Þrjár rúsínur í 2019-pylsuendanum

Árið 2019 var metár í útgáfu íslenskra ljóðabóka. Í Són 17 fjölluðum við um 30 bækur en það var ekki einu sinni helmingurinn af því sem út kom. Margar bækur sem gaman hefði verið að fjalla um voru því ekki með. Hér langaði mig aðeins að minnast stuttlega á þrjár bækur sem ég kunni sérstaklega að meta.

Brynjólfur Þorsteinsson. Þetta er ekki bílastæði. Una útgáfuhús.

Brynjólfur fékk Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2019 fyrir magnað ljóð sem hefst á orðunum „allir hrafnar eru gat“ (bls. 11 í bókinni). Með þessari bók sýnir hann að verðlaunin voru enginn grís. Kaflaheiti bókarinnar eru heiti vetrarmánaða: gormánuður, ýlir, mörsugur. Hér eru ekki rómantískar vetrarmyndir með hvítum snjó og tifandi stjörnum heldur fremur rigningarvetur í borginni og „snjórinn í vegkantinum er svartur / eins og maskari sem hefur runnið til“ (bls. 39). Sérstaklega held ég upp á ljóðið Í strætó númer eitt (bls. 25):

tröllið var þungstígt
í morgun
á leið til vinnu
undir brúna

um það vitna sporin í snjónum

fæturnir drógu línur
plógför kulnunar í starfi

mánadagur
hækkandi sól

og garnirnar í ásnum eru fullar

váboði
samkvæmt kerlingabókum

svifrykið
eins og þokumistur
í útlensku ævintýri
sem endar ekki vel

Ljóð Brynjólfs einkennast af súrrealískri hugmyndaauðgi en eru jafnframt öguð og fáguð. Bókaforlagið Una gaf út tvær ljóðabækur í ár – hin er Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur. Þetta eru tvær af bestu og áhugaverðustu bókum ársins.

Tove Jansson. Þórarinn Eldjárn þýddi. Hver vill hugga krílið? Mál og menning.

Þetta er falleg bók sem auðvelt er að þykja vænt um. Sagan er um feimið kríli sem ferðast óttaslegið í gegnum kynjaveröld, fyrst á stöðugum flótta. Þegar krílið fær spurnir af annarri feiminni smáveru sem er í vanda stödd færist það allt í aukana og bítur jafnvel sjálfa morruna í skottið þegar með þarf.
Hér er sýnishorn af þýðingunni:

Bréfinu stakk krílið vel í vasann,
það var hans fyrsta bréf og svo auk þess
frá stelpu. Oft og ótal sinnum las hann
það ánægður og varð um leið svo hress,
svo klár og fær og kjarkmikill við það
að kalt en gott hann fékk sér tunglskinsbað

Svona er þetta á frummálinu:

Och knyttet gömde brevet i sin ficka,
det första brev han nånsin hade fått,
dessutom var det skrivet av en flicka
och detta gjorde knyttet mycket gott.
Han blev med ens så modig, stark och glad,
han tog ett kallt, men lyckligt månskensbad

Þegar kvæði fyrir börn eru þýdd á íslensku verður textinn oft svolítið þyngri en á frummálinu. Þórarni tekst þó að mestu að halda þessum vanda í skefjum. Skemmtilegt er að sjá þegar rímið úr frumtextanum gengur aftur í þýðingunni, eins og í þessum orðum sem fanga boðskap sögunnar:

En hver vill hugga krílið, við hann segja sannindin:
Að sá sem alltaf flýr í burt hann eignast aldrei vin.

Men vem ska trösta knyttet med att säga sanningen:
om du bara springer undan så får du ingen vän.

Textinn er fallegur en myndirnar eru þó fallegri.

Gunnar J. Straumland. Höfuðstafur. Sæmundur.

Eins og Tove Jansson er Gunnar Straumland höfundur sem tekst bæði á við ljóðlist og myndlist. Hann er fimur við háttbundinn kveðskap og yrkir meðal annars um samfélagið, ástina og líðandi stund. Best þykja mér náttúruljóð Gunnars og hann yrkir ekki síst um fugla, meðal annars einlæg og falleg ljóð um keldusvín og jaðrakan (bls. 41–42). Ég er ekki frá því að Gunnari takist líka best upp í málaralistinni þegar fuglar eru viðfangsefnið.

Skemmtilegasta kvæði bókarinnar þykir mér vera Tíðindi úr syndaflóði (bls. 59):

Í svölu regni í sveitinni við svömluðum.
Sæhestana söðluðum
og sundriðum á túnunum.

Sjóbirtingur synti á engi, sautján pund!
Með bros á vör í birkilund
bleikja hrygndi á vota grund.

Sá ég glitta í sellátur við sauðakró.
Marbendill við mosató
mitt í okkar garði hló.

Fossar regnið, flæða tún og fjallaskörð.
Nýja á ég nykrahjörð,
nú er drukkin Móðir jörð.

Bráðum kemur nýtt ár með nýjum ljóðabókum. – Haukur Þorgeirsson

Greinakall

Són lýsir eftir efni! Skilafrestur fyrir hefti ársins 2019 er 1. ágúst fyrir ritrýndar greinar en 15. september fyrir annað efni. Takið skilafrestinn alvarlega því að við viljum koma heftinu út í desember ef þess er nokkur kostur.
Són birtir ritrýndar greinar um allt það er lýtur að rannsóknum á ljóðlist – til dæmis frá sjónarhóli fagurfræði, bragfræði, þýðingafræði, málfræði, hugmyndafræði eða bókmenntasögu. Umfjöllun getur til dæmis verið um einstök skáld, kvæði, þemu, bókmenntastefnur eða tímabil allt frá elstu tíð til líðandi stundar.
Són birtir einnig greinar og pistla sem fara ekki í gegnum ritrýningarferli en birtast undir yfirskriftinni Óðflugur og umræðugreinar.
Són birtir jafnframt ritdóma og ritfregnir og vill gjarnan birta umfjöllun um ljóðlist, kveðskap og textagerð líðandi stundar.
Allt efni í Són er á íslensku en ritrýndum greinum fylgir útdráttur á ensku.
Handrit skulu send ritstjórum:
Aðalsteinn Hákonarson, adh3@hi.is
Haukur Þorgeirsson, haukurth@hi.is
Teresa Dröfn Njarðvík, tdn1@hi.is