: » 

Til höfunda

Ath. þessi síða er í vinnslu, vinsamlegast hafið þann fyrirvara á.
 

Um leiðbeiningarnar

Markmið þessara leiðbeininga er að auðvelda ritstjórum, yfirlestrum og umbrotsmönnum verk sitt. Því betur sem höfundar fara eftir þeim, því auðveldara er að ganga frá efninu til prentunar og gæta samræmis í frágangi.
 
Yfirlesarar greina eru m.a. beðnir að huga að því hvort höfundar fari eftir leiðbeiningum tímaritsins og því má búast við athugasemdum sem varða slíka hluti. Ef höfundur gengur ekki frá lokagerð handrits í samræmi við leiðbeiningar tímaritsins má hann búast við að fá það endursent með beiðni um lagfæringar. Slíkt getur tafið birtingu greina.
 
Stundum koma upp álitamál um skráningu og þá þurfa greinahöfundar og ritstjórar að leysa úr þeim í sameiningu.
 

1. Um tímaritið

Són, tímarit um óðfræði, birtir ritrýndar greinar um allt það er lýtur að rannsóknum á kveðskap, sögu hans, bragfræði, málfræði og bókmenntagreiningu. Markmið tímaritsins er að vera vettvangur fræðilegra skrifa á þessu sviði.
 
Einnig eru teknar til birtingar greinar sem fara ekki í gegn um ritrýningarferli en þykja þó eiga erindi við lesendur tímaritsins til fróðleiks og skemmtunar. Þær birtast í sérstökum bókarhluta undir yfirskriftinni  Óðflugur og umræðugreinar .
 
Ritið birtir einnig ritdóma og ritfregnir, auk efnis frá ritstjórn.
 
Í hverju riti eru frumbirt nokkur ljóð íslenskra ljóðskálda og ljóðaþýðenda, þar á meðal Sónarljóðið sem skipar heiðursess í upphafi hvers rits.
 
Greinar skulu að jafnaði skrifaðar á íslensku nema sérstaklega þyki ástæða til þess að víkja frá því.
 
Grein til ritrýningar skal senda til ritstjóra sem meta hvort hún skuli sett í ritrýningarferli. Standist greinin mat ritstjóra er hún lögð í hendur tveggja yfirlesara sem skila athugasemdum til ritstjóra. Yfirlestrum er ekki greint frá hver höfundur greinarinnar er og höfundur veit ekki hverjir lesa yfir. Ritstjóri metur greinina ásamt yfirlestrum og sér um að koma viðeigandi athugasemdum til höfunda (sjá nánar í 14. kafla hér á eftir).
 

2. Skil á handritum og frágangur þeirra

Handriti skal skila sem tölvuskjali til ritstjóra. Í flestum tilvikum dugir að skila einföldu ritvinnsluskjali, t.d. Word, en sé mikið af sértáknum í handritinu eða uppsetning flókin (t.d. mikið um töflur og myndir) getur verið nauðsynlegt að láta pdf-skjal fylgja með.
 
Þegar samþykkt hefur verið að birta grein og hún telst frágengin af höfundar hálfu skal henni skilað sem ritvinnsluskjali. Mikilvægt er að ritvinnsluskjalið sé sem allra einfaldast að gerð og að höfundar taki burt sem allra mest af þeim sjálfvirku skipunum sem völ er á í mörgum ritvinnsluforritum (sjálfvirk kaflanúmer, sjálfvirk dæmanúmer, sjálfvirkur frágangur ritaskrár, sjálfvirk bil á eftir efnisgreinum, sjálfvirkar leturstærðir í fyrirsögnum (stílar) o.s.frv. ef þeir nota þær í ritvinnslunni.
 
Séu einhver sértákn notuð í greininni, (svo sem lykkju-o, handritatákn, hljóðritunartákn, grískir stafir eða annað þess háttar) ber höfundum að nota leturgerð sem er samhæfð UNICODE-staðlinum. Séu notuð fágæt handritatákn sem hafa ekki ratað í UNICODE skal nota leturgerð sem fygir hinm óoinbera MUFI-undirstaðli miðaldafræðinga (sjá mufi.info).  Með því er dregið  úr hættunni á því að leturtákn misfarist (sjá nánar í 9. kafla).
 
Ekki er neinn sérstakur skilafrestur, enda er mikilvægt fyrir vinnslu tímaritsins að efni berist í það jafnt og þétt allan ársins hring. Innsend handrit eru send til ritrýningar jafnóðum og það ferli getur tekið talsverðan tíma (sjaldnast minna en tvo mánuði, oft meira). Greinar eru að öðru jöfnu birtar í þeirri röð sem samþykktar lokagerðir þeirra berast.
 
Þó að greinin fari að endingu í umbrot þarf að skila henni snyrtilega frágenginni fyrir yfirlestur, með góðum spássíum, hæfilegu línubili og með númeruðum blaðsíðum.
 
Athugið að hæfileg lengd ritrýndra greina er 15–30 síður í tímaritinu (um 4.500–9.000 orð, nokkuð mismunandi eftir því hve mikið er um dæmi, töflur, myndir og þess háttar). Greinar skulu að jafnaði ekki vera lengri en 40 tímaritssíður (um 12.000 orð).
 

3. Stafsetning og greinarmerkjasetning

Æskilegt er að höfundar fari að opinberum reglum um stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Athugið líka eftirfarandi venjur tímaritsins (þetta eru líka algengar venjur umbrotsmanna):
 
Slá skal eitt stafbil á eftir kommu og punkti (ekki tvö).
Nota skal meðallangt strik, þ.e. – (stundum kallað n-strik), bæði sem þankastrik og í merkingunni til, t.d. í ártölum eða öðrum tölum, t.d: bls. 16−24.
 

4. Framsetning efnis og kaflaskipting greina

Eitt af því sem best stuðlar að læsileika greina er skýr kaflaskipting. Stuttar athugasemdir þurfa að sjálfsögðu ekki að vera kaflaskiptar en lengri greinum skal skipta í kafla sem hver hafi sitt sérstaka heiti.
 
Athugið að ætlast er til þess að allar greinar hefjist á inngangi þar sem viðfangsefnið er reifað, sagt frá því hvernig á því verði tekið og jafnvel tæpt á meginniðurstöðum. Einnig er nauðsynlegt að hafa niðurlagskafla eða lokaorð í hverri grein þar sem helstu niðurstöður eru rifjaðar upp fyrir lesandanum og jafnvel bent á frekari rannsóknarefni. Stundum getur líka verið æskilegt að draga niðurstöður saman í lok einstakra kafla.
 
Leturbreytingar í kaflafyrirsögnum eru með þeim hætti í Són sem fram kemur hér:
Skáletur er í öllum kaflaheitum en leturstærðin fer eftir því hvort um aðalkafla eða undirkafla er að ræða.
Æskilegt er að höfundar gangi frá kaflafyrirsögnum á þennan hátt þótt lokafrágangur verði í höndum umbrotsmanns.
 
Það fer eftir lengd og innihaldi greina hvort rétt þykir að númera kafla. Númer hafa sér það til ágætis að þau auðvelda allar tilvísanir úr einum kafla í annan í lengri greinum en kaflaheiti sýna lesandanum hvar hann er staddur í greininni (og auðvelda höfundi að skipa saman í kafla því sem saman á). Mjög stuttir inngangskaflar þurfa hvorki nafn né númer, þó að lengri inngangskaflar og aðrir kaflar kunni að hafa hvort tveggja.
 
Ef nauðsynlegt er að skipta köflum upp í undirkafla skal auðkennt með skýrum hætti með hvað er fyrirsögn aðalkafla og hvað er fyrirsögn undirkafla með leturstærð og númerum.
 
Ritrýndum greinum þarf að fylgja útdráttur á ensku ásamt lykilorðum. Ætlast er til þess að höfundar greina skrifi hann og láti hann fylgja í handriti (sjá kafla 13).
 
Heimildaskrá eða ritaskrá skal fylgja öllum greinum í Són (sjá nánar í sérstökum köflum um heimildir og tilvísanir, 11. og 12. kafla).
 

5. Neðanmálsgreinar

Ýmiss konar innskot, þakkir fyrir veitta aðstoð, óútskýrð vandamál og fleira sem gjarna rýfur eða truflar frásögn meginmáls er gott að setja í neðanmálsgreinar. Að öðru leyti er best að hafa neðanmálsgreinar eins fáar og stuttar og unnt er. Í þeim skulu aðeins vera efnislegar athugasemdir en hvorki hreinar tilvísanir né heimildir (sjá í 11. og 12. kafla).
 
Almennar þakkir fyrir veitta aðstoð og þess háttar eru venjulega hafðar í fyrstu neðanmálsgrein. Allar neðanmálsgreinar skulu tölusettar með samfelldri töluröð frá upphafi greinar til enda. Í meginmáli skal vísa til neðanmálsgreina með viðeigandi tölustöfum ofan við línu (og hægra megin við greinarmerki ef því er að skipta).
 
Ekki er hafður punktur á eftir númeri neðanmálsgreinar, hvorki í meginmáli né í neðanmálsgreininni sjálfri. Um tölusetningu dæma í neðanmálsgreinum er fjallað í næsta kafla.
 

6. Dæmi

Frágangur dæma skiptir meginmáli um læsileik greina, en jafnframt getur verið mikil vinna að ganga frá dæmum til prentunar ef ekki er gætt samræmis í uppsetningu þeirra í handriti. Þess vegna eru eftirfarandi leiðbeiningar býsna ítarlegar.

Dæmi inni í meginmáli
Dæmi inni í meginmáli s.s. braglínur, hluti úr braglínu eða einstök orð eru auðkennd með skáletri. Sama máli gegnir um einstök hljóð eða atkvæði. Dæmi:
 
Auk þess þótti mér alltaf viðtengingarhátturinn í fjórða erindinu kvöldið þetta hið kalda / kveið eg þau bæði deyði benda ótvírætt til að þau lifðu þetta af.
 
Kristján Árnason bendir þessu til skýringar á rímorðin halur og dali.
 
Hér rímar sæm- á móti sam- í báðum tilvikum.
 
Þannig stuðlar b aðeins við b.
 
Stafsetningartákn
Venjuleg stafsetningartákn eru afmörkuð með einföldum (enskum) tilvitnunar­merkjum:
 
Hann skrifar Elvar með ‘v’ en ekki ‘f’.
 
Sérstök leturtákn
Þegar um er að ræða sérstök leturtákn, t.d. úr handritum, getur verið skýrara að nota oddklofa eins og oft er gert í textafræði:
 
Þessi skrifari notar oft <ę> án brodds til að tákna /æ/.
 
Skástrik
Í dæminu hér að framan eru skástrik notuð til að afmarka hljóðkerfislegar einingar (fónem, sjá nánar í 9. kafla).

Einföld tilvitnunarmerki
Erlend máldæmi í meginmáli eru auðkennd með sama hætti og íslensk en íslensk þýðing þeirra eða merking er afmörkuð með einföldum tilvitnunarmerkjum. Dæmi:
 
Hann vildi ekki nota orðið madrastra ‘stjúpa’.
 
Einnig skal nota einföld tilvitnunarmerki þegar rætt er um merkingu íslenskra orða:
 
Þetta er orðið mækir ‘sverð’.
 
Erlend heiti fræðilegra hugtaka
Erlend heiti fræðilegra hugtaka má setja innan sviga, skáletra og merkja því máli sem við á:
 
Hér eru það myndlíkingar (e. metaphors) sem skipta máli.


Andstætt stílbragð er úrdráttur (gr. litotes).
 

7. Myndir töflur og gröf

Einfaldar töflur er best að hafa á sínum stað í tölvuskjali. Ef um er að ræða flóknari töflur, myndir eða gröf er oft betra að auðkenna í ritvinnsluskjalinu hvar ætlast er til að taflan/myndin/grafið komi og hafa sjálft myndefnið á sérstökum síðum aftast í handriti. Til skýrleiksauka má láta pdf-skjal fylgja sem sýnir æskilega staðsetningu myndefnis.
 
Vert er að hafa í huga að ekki er víst að hægt sé að koma myndefni fyrir á nákvæmlega þeim stað í umbroti sem gert er ráð fyrir í handriti. Þess vegna skal forðast að vísa í töflur og myndir með orðalagi eins og „hér fyrir ofan“ eða „á næstu síðu“ en nota númer í staðinn (t.d. „í töflu 1“, „á mynd 2“).
 
Myndir og gröf sem krefjast góðar upplausnar er best að láta fylgja handriti sem sjálfstæðar tölvuskrár eða á pappír.
 
Númer á töflu eða mynd kemur fyrir neðan myndefnið, ásamt skáletruðum skýringartexta. Best er að hafa línubil á undan myndefni og á undan og eftir skýringartexta. Dæmi um skýringartexta:
 
Tafla 1: Tíðni ofstuðlunar á tímabilinu 1500−1900.
 
Ekki fer vel á því að hafa tölulegar upplýsingar inni í meginmáli nema þær séu mjög einfaldar og er því yfirleitt farið fram á að tölulegar upplýsingar séu settar fram í töflum. Töflur þarf að dálksetja (þ.e.a.s. ekki skal hafa nein auð stafabil í töflum). Þær skulu ekki hafðar flóknari eða stærri en svo að auðvelt sé að koma þeim fyrir á prentaðri síðu og best er að hver tafla sé minni en síða.
 
Best er að hafa sem minnst af línum eða strikum í töflum í handriti. Slíkt fer yfirleitt úr skorðum í umbroti og flækir það. Ef nauðsynlegt þykir má sýna æskilegt útlit töflu (með línum o.s.frv.) í meðfylgjandi pdf-skjali.
 

8. Leturbreytingar

Samræmi í notkun leturbreytinga í prentuðu máli er til þæginda fyrir lesendur. Samræmi í notkun leturbreytinga í handriti er nauðsyn fyrir umbrotsmenn og þá sem ganga frá texta til prentunar. Höfundar eru því beðnir að reyna að fara nákvæmlega eftir reglum tímaritsins um leturbreytingar. Þær eru dregnar saman hér fyrir neðan.
 
Heiti ljóða
Heiti ljóða skulu vera rituð með hásteflingum (einnig nefndir litlir hástafir, e. small caps) án upphafsstafa. Dæmi: fjallið skjaldbreiður (ekki Fjallið Skjaldbreiður) til aðgreiningar frá megintexta og ritaheitum sem eru skáletruð.  Ekki skal hafa tilvitnunarmerki utan um heiti ljóða nema sérstök ástæða þyki til.
 
Skáletur
Skáletur er einkum notað í eftirfarandi tilvikum:
 
Til að auðkenna heiti tímarita og bóka, bæði í heimildaskrá og meginmáli:
 
Eins og fram kemur í ritdómi Jóns Jónssonar um Íslenska bragfræði í síðasta hefti Sónar.
 
Sé hins vegar um að ræða heiti á bókmenntaverki eða handriti skal ekki breyta letri:
 
Knýtlinga saga, Möðruvallabók, AM 468 4to.
 
Í kaflafyrirsögnum (bæði númerum og heitum).
Í erlendum orðum sem koma fyrir inni í meginmáli eða sem þýðingar á hugtökum (sjá Kafla 6).


Vert er að vekja athygli á því að skáletur er ekki notað til þess að auðkenna orð sem ætlunin er að leggja sérstaka áherslu á. Til þess er notað feitt letur (sjá nánar hér á eftir).
 
Feitt letur  Skáletur? Sbr. mækir í dæminu hér á eftir? Feitletur er svo ljótt
Feitt letur er fyrst og fremst notað til að vekja athygli á fræðilegu hugtaki þegar það er nefnt í fyrsta skipti:
 
Þetta hefur verið nefnt braghvíld á íslensku.
 

9. Notkun tilvitnunarmerkja (gæsalappa) og ýmissa sértákna

 
Fyrir lesendur er mikilvægt að gætt sé samræmis í notkun tilvitnunarmerkja og ýmiss konar sértákna og það auðveldar mjög vinnu umbrotsmanna og þeirra sem ganga frá handritum til prentunar að höfundar fari sem nákvæmast eftir leiðbeiningum tímaritsins um þessi efni.
 
Einföld tilvitnunarmerki
Einföld tilvitnunarmerki (einfaldar gæsalappir sem líkjast tölunum 6 og 9) eru notuð í þremur tilvikum:
 
Til að afmarka merkingu orða og hugtaka, bæði erlendra og íslenskra:
 
Þetta er orðið mækir ‘sverð’.
 
Til að afmarka hrein leturtákn:
 
Sum orð eru ýmist skrifuð með ‘í’ eða ‘ý’, til dæmis ítarlegur/ýtarlegur.
 
Tvöföld tilvitnunarmerki
Tvöföld tilvitnunarmerki (venjulegar gæsalappir) eru fyrst og fremst notuð til að afmarka orðréttar tilvitnanir:
 
Hann setur þululjóð Huldu í samhengi við formnýjungar og nýjar hugmyndir í samtímakveðskap og bendir meðal annars á að Hulda bryddi í þululjóðum sínum upp á „nýrri náttúrusýn með harmrænu ívafi“ (bls. 105).
 
Séu orðréttar tilvitnanir lengri en u.þ.b. 25 orð fer yfirleitt betur á því að afmarka þær með inndrætti (sjá nánar hér neðar).
 
Athugið að í tímaritinu er fylgt þeirri íslensku venju að hafa fremri gæsalappir niðri og þær aftari uppi og snúa þeim eins og hérað ofan er sýnt (gæsalappir sem líkjast tölunum 99 og 66). Þetta er þó aðeins gert í efni sem er skrifað á íslensku.
 
Athugið líka að greinarmerki eins og punktar, kommur og spurningarmerki koma utan tilvitnunarmerkja nema þau séu nauðsynlegur hluti af tilvitnunni sjálfri.
 
Auk þessarar aðalnotkunar eru venjulegar gæsalappir stundum hafðar utan um orð sem eru notuð í óvenjulegri eða óeiginlegri merkingu:
 
Í tímaritinu eru notaðar „íslenskar“ gæsalappir eins og þær eru stundum kallaðar þótt þær séu í sjálfu sér ekki íslenskar að uppruna.
 
Ekki þykir fara vel á því að nota þessa aðferð mjög mikið.
 
Skástrik
Skástrik eru meðal annars notuð á eftirfarandi vegu:
 
Til að aðgreina braglínur í samfelldum texta. Hafa skal bil á undan og eftir skástrikinu:
 
Allir krakkar, allir krakkar / eru í skessuleik.
 
Til að sýna að um sé að ræða hljóðkerfislega (fónemíska) ritun eða hljóðkerfislegar einingar:
 
Í órödduðum framburði eru /l,m,n/ órödduð á undan /p,t,k/.
 
Hornklofar
Hornklofar eru einkum notaðir til að tákna innskot af ýmsu tagi, t.d. í tilvitnanir sem eru orðréttar að öðru leyti:
 
„enda eru þau [þ.e. dróttkvæðin] heldur efnislítil í sjálfu sér“ segir hann orðrétt.
 
Í samræmi við þessa síðartöldu notkun eru viðbótarupplýsingar í heimildaskrá oft afmarkaðar með hornklofum.
 
JS [Jón Samsonarson.] 1983. Þula. Hugtök og heiti í bókmenntafræði, bls. 310−312. Jakob Benediktsson (ritstj.). Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands/Mál og menning, Reykjavík.
 
Sigurjón Friðjónsson. 1928. Ljóðmæli. [Án útgefanda,] Reykjavík.
 
Oddklofar
Oddklofar eru notaðir til að afmarka (óvenjuleg) leturtákn (sjá kafla 6):
 
Þessi skrifari notar oft <ę> án brodds til að tákna /æ/.
 
Svigar eru einkum notaðir utan um tilvísanir til heimilda:
 
Ragnar Ingi Aðalsteinsson (1989:93) hefur bent á þetta.
 
Hvað með Tvíkross, Stjörnu og Gervitákn? Þurfum við þau tákn?
 
Inndráttur
Inndráttur er einkum notaður sem hér segir:
 
Til að afmarka nýja efnisgrein. Athugið þó að fyrsta efnisgrein hvers kafla og undirkafla er ekki inndregin.
Til að afmarka langar beinar tilvitnanir og þá er haft línubil á undan og eftir. Athugið að í slíkum tilvikum er tilvitnunin ekki auðkennd með gæsalöppum að auki:
 
Um Sólsetursljóð segir Guðmundur Friðjónsson:
 
Sjálfstæði Jónasar kemur fram í þessu kvæði og öðrum, sem líkt eru kveðin.
    Hátturinn er einfaldur og forn að eðli sínu og atkvæða skipan, Fornskáldin skreyttu hann ekki né tildruðu honum til.
    En Jónas gerir úr honum gullfjallað víravirki með því að segja: fagur guðs dagur, blessaður, blessandi, blíður röðull þýður og annað því um líkt, bæði í þessum kvæðum og öðrum (1907:184).
 
Hér er tilvísun í heimild höfð næst á eftir tilvitnuninni og í slíkum tilvikum er hún jafnan höfð á undan punktinum sem afmarkar tilvitnunina. Stundum fer betur á því að hafa tilvísun á undan tilvitnun, það fer eftir samhenginu.  Sé höfundur nefndur fullu nafni í meginmáli getur verið nóg að nefna ártal og blaðsíðutal í tilvísun eins og sýnt er hér að ofan (sjá nánar í 12. kafla).
 
Sé einhverju sleppt úr beinni tilvitnun og punktum skotið inn í staðinn til að sýna brott­fellinguna eru punktarnir afmarkaðir með hornklofum eins og önnur innskot […] (Sjá nánar í 12. kafla)
 
Hangandi inndráttur
Svonefndur hangandi inndráttur er notaður í heimildaskrám (sjá 11. kafla).

 
10. Ritdómar og ritfregnir

Ritdómar
Ritdómar hefjast á nafni höfundar þess verks sem ritdæmt er og bókfræðilegum upplýsingum um það. Dæmi:
 
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013. Íslensk bragfræði. Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík. 173 bls.
 
Nafn höfundar ritdómsins kemur svo í lokin (en ekki fremst eins og í greinum). Að öðru leyti gilda sömu reglur um frágang ritdóma og annars efnis. Athugið líka að venja er að tilgreina stærð (þ.e. blaðsíðufjölda) bóka í ritdómum þótt það sé ekki gert í heimildaskrám.
 
Ritfregnir
Ritfregnir lúta sömu reglum um frágang og ritdómar, enda eru þær í eðli sínu stuttar umsagnir um rit. Þó er tveim eða fleiri ritfregnum stundum steypt saman undir eina fyrirsögn ef um er að ræða rit um skylt efni. Nafn höfundar og bókfræðilegar upplýsingar um hvert rit kemur þá á undan fregninni um hvert rit.
 

11. Heimildir

Skrá um þær heimildir sem vísað er til þarf að fylgja öllu efni. Heimildum er raðað eftir nöfnum höfunda ellegar skammstöfuðum eða styttum heitum rita ef ekki hentar að kenna ritið við tiltekinn höfund. Séu höfundar fleiri en einn eru þeir tilfærðir í þeirri röð sem höfð er í heimildinni sjálfri.
 
Raða skal eftir íslenskri stafrófsröð (a á undan á o.s.frv.) og miða röðun við skírnarnafn íslenskra höfunda en raða erlendum höfundum eftir seinna nafni (ættarnafni). Athugið að ættarnafn erlendra höfunda kemur ekki á undan skírnarnafni nema þar sem raðað er í stafrófsröð. Það merkir m.a. að það er aðeins nafn fyrsta höfundar sem snýr þannig ef um fleiri höfunda er að ræða. Nöfn hinna höfundanna koma í venjulegri röð (sbr. dæmi hér á eftir).
 
Flest fræðileg tímarit hafa ákveðnar reglur um frágang heimildaskrár og vísanir til hennar. Hér á eftir fer dæmi um heimildaskrá þar sem reynir á flestar þær venjur sem farið er eftir í Són:
 
Dæmi um heimildaskrá
 
Handrit og óútgefið efni
Aðalbjörg Bragadóttir. 2009. „Þetta land skamma stund bjó mér stað. Ég er strá í þess mold. Ég er það.“ Um sérstöðu ljóðagerðar Kristjáns Einarssonar frá Djúpalæk. Ritgerð til MA.–prófs í íslenskum bókmenntum. Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
 
Det kongelige bibliotek, Kaupmannahöfn
NKS 3288 4to
 
Kungliga biblioteket, Stokkhólmi
Sth. perg. 15 4to
Sth. perg. 23 4to
 
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
JS 560 4to
Lbs 2033 4to
Lbs 2166 4to
 
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
AM 469 4to
AM 712 a 4to
AM 713 4to
 
Prentaðar heimildir
Egils saga Skalla-Grímssonar. 1933. Íslenzk fornrit 2. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
Finnur Jónsson (útg.). 1912. Den norsk-islandske skjaldedigtning. B I. Gyldendal, København.
Haraldur Bessason. 2002. Himnastiginn og Stephan G. Baldur Hafstað og Haraldur Bessason (ritstj.): Úr manna minnum. Greinar um íslenskar þjóðsögur, bls. 235−253. Heimskringla, Reykjavík.
Helga Kress. 1997. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Helga Kress. 2012. Unir auga ímynd þinni. Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Skírnir 186, I:5‒49.
Helgi Björnsson. 1938. Erla. Lesbók Morgunblaðsins, 10. apríl, bls. 107.
Holownia, Olga. 2010. „Not Not Nursery Rymes“ and „Not Not Lullabies“: How Carol Ann Duffy and Þórarinn Eldjárn Refurnish  the Nursery. Morag Styles, Louise Joy og David Whitley (ritstj.): Poetry and Childhood, bls. 101−109. Trentham Books, Stoke on Trent.
Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík, 2002.
Jakob Benediktsson (ritsj.). 1983. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands/Mál og menning, Reykjavík.
Jonsson, Bengt R., Svale Solheim og Eva Danielson. 1978. The Types of the Scandinavian Medieval Ballad. A descriptive catalogue. Universitetsforlaget, Oslo.
Jón Bjarnason. 1886a. Sálmabókin nýja. Sameiningin 1, 7:105‒107.
Jón Bjarnason. 1886b. Sálmabókin nýja. Sameiningin 1, 8:115‒120.
Kolbeinn Soffíuson. 2008. Ljóð sem neysluvara. Um Bónusljóð eftir Andra Snæ Magnason. Tímarit Máls og menningar 69, 4:49−56.
Lassen, Annette. 2006. Hrafnagaldur Óðins / Forspjallsljóð. Et antikvarisk digt? John McKinnell, David Ashurst og Donata Kick (ritstj.): The Fantastic in Old Norse/Icelandic Literature. Sagas and the British Isles. Preprints of the Thirteenth International Saga Conference, Durham and York, 6th – 12th August, 2006, bls. 551−560. Durham University, Durham.
Ljósv = Ljósvetninga saga. Íslenzk fornrit 10. Björn Sigfússon gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1940.
Minkova, Donka. 2003. Alliteration and Sound Changes in Early English. Cambridge University Press, Cambridge.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013. Íslensk bragfræði. Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Schweitzer, Ph. 1887. Um stuðla setning og höfuðstafs í íslenzku. Tímarit Hins íslenzka bókmentafjelags 8:316‒318.
Yelena Yershova. 2003. Hinn nýi „gamli“ kveðskapur. Þululjóð 20. aldar og síðmiðaldaþulur. Andvari 128, bls. 123‒151.
Þorleifur Hauksson. 1968. Endurteknar myndir í kveðskap Bjarna Thorarensens. Studia Islandica 27. Heimspekideild Háskóla Íslands og Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Þórður Helgason. 2013. Nýr háttur verður til. Són 11:47−85.
 
Almennar ábendingar
 
Inndráttur
Hafður er hangandi inndráttur í heimildaskrá eins og sýnt er í dæmunum hér á undan, þ.e. hver fletta er inndregin frá og með annarri línu.
 
Rómverskar tölur
Ákveðnar venjur gilda um meðferð rómverskra talna:
Í stað rómverskra talna í ártölum (t.d. útgáfuári) eru notaðar arabískar tölur.
Í stað rómverskra talna í bindisnúmerum tímarita eða ritraða þar sem bindi verða mörg (sbr. tímaritið Eimreiðina eða ritröðina Íslenzk fornrit) eru notaðar arabískar tölur til skýrleiksauka (fáir eru fluglæsir á flóknar rómverskar tölur).
Ástæðulaust er að breyta rómverskum tölum í arabískar þegar um er að ræða rit í fáeinum bindum, t.d. færri en tíu.
Stafréttar færslur
Gæta þarf samræmis í því hvað er haft stafrétt í heimildaskrá (þ.e. eins og á titilsíðu bókar eða tímarits sem vísað er til) og hvað ekki. Venja er að taka eftirfarandi stafrétt upp:
Nöfn höfunda, bóka, tímarita og útgefenda (útgáfufélaga og forlaga), sbr. nöfn eins og „Tímarit Hins íslenzka bókmentafjelags“  og „Hið íslenzka fornritafélag“ í skránni hér á undan.
Íslenskaðar færslur
Ekki er ástæða til að taka eftirfarandi upp stafrétt:
Upplýsingar um útgáfu eða breytingu á útgáfu (sbr. að skrifað er „5. útg. óbreytt“ þótt á titilblaði standi þessar upplýsingar á t.d. ensku eða þýsku).
Nafn á útgáfustað. Þetta eru venjulega nafn á bæ eða borg sem ákveðnar venjur gilda um í hverju máli fyrir sig og því er eðlilegast að hafa nöfnin á því máli sem greinin er á. Því skal rita „Kaupmannahöfn“ þótt nafn útgáfustaðarins kunni að vera skrifað „København“, „Copenhagen“ eða „Hafniæ“ á titilsíðu. Væri þetta hins vegar ritaskrá úr grein sem væri skrifuð á dönsku stæði að sjálfsögðu „København“ en „Copenhagen“ ef greinin væri á ensku.
 
Stórir og litlir stafir í enskum titlum
Notkun stórra og lítilla stafa í enskum titlum. Um þetta gilda nokkuð mismunandi reglur eftir enskum málsvæðum. Í Són er yfirleitt farið eftir bandarískum venjum um þetta, en samkvæmt þeim eru stórir stafir í öllum aðalorðum í heitum greina, bóka og tímarita en ekki í smáorðum. Athugið að farið er eftir þessari venju án tillits til þess hvernig þessu er háttað á titilblaði viðkomandi rits. Dæmi:
 
Holownia, Olga. 2010. „Not Not Nursery Rymes“ and „Not Not Lullabies“: How Carol Ann Duffy and Þórarinn Eldjárn Refurnish  the Nursery. Morag Styles, Louise Joy og David Whitley (ritstj.): Poetry and Childhood, bls. 101−109. Trentham Books, Stoke on Trent.
 
Tengiorð þegar höfundar eru fleiri en einn
Þegar um tvo eða fleiri höfunda er að ræða er sett og á viðeigandi stað á milli nafna höfundanna (eða and ef um er að ræða heimildaskrá í grein á ensku) án tillits til þess hvort þar stendur og, and, och, et, y eða tengiorð úr einhverju öðru máli á titilblaði — eða ekkert tengiorð:
 
Morag Styles, Louise Joy og David Whitley (ritstj.):
 
Viðaukaupplýsingar
Viðaukaupplýsingar, t.d. ýmsar skýringar eða upplýsingar um endurútgáfur, má hafa innan hornklofa.

Skáletur
Skáletur er notað í heitum tímarita og bóka, þ.á m. fjölritaðra ráðstefnurita og fjölritaðra tímarita. Hins vegar er ekki venja að breyta letri í heitum rita sem ekki er dreift opinberlega, t.d. óprentaðra meistaraprófsritgerða sem höfundar hafa fjölritað og dreift sjálfir. Ef slík ritgerð er aðgengileg á Netinu má þó líta á það sem opinbera birtingu og skáletra heiti hennar og sama á þá við um doktorsritgerðir sem hægt er að nálgast á Netinu þótt þeim hafi ekki verið dreift í prentuðu formi.
 
Skáletur er ekki notað í undirtitlum eða viðaukaheitum á borð við „Kennslubók handa framhaldsskólum“.
 
Tvö eða fleiri rit með sama útgáfuár og eftir sama höfund
Tvö eða fleiri rit sem hafa sama útgáfuár og eru eftir sama höfund eru aðgreind með a, b ... (fast við útgáfuár) í heimildaskrá (og í tilvísun):
 
Jón Bjarnason. 1886a. Sálmabókin nýja. Sameiningin 1, 7:105‒107.
Jón Bjarnason. 1886b. Sálmabókin nýja. Sameiningin 1, 8:115‒120.
 
Skammstafanir
Skammstafanir heimilda þurfa að koma fram í heimildaskrá. (sbr. Ljósv í skránni hér á undan). Ef um margar skammstafanir er að ræða getur verið skýrara að hafa þær í sérstakri skammstafanaskrá á undan sjálfri heimildaskránni. Að jafnaði er reynt að forðast millitilvísanir í heimildaskrá.
 
Ljósv = Ljósvetninga saga. 1940. Íslenzk fornrit 10. Björn Sigfússon gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
 
 
Ábendingar um einstaka tegundir heimilda
 
Notkun greinarmerkja, röð upplýsinga og ýmis önnur frágangsatriði í heimildaskrá eru svolítið mismunandi eftir því hvers konar heimild er um að ræða. Helstu flokkarnir eru taldir hér á eftir.
 
Greinar í blöðum og tímaritum
Á eftir nafni höfundar kemur ártal (útgáfuár tímaritsheftis), þá heiti greinar, heiti tímarits, árgangur, tvípunktur fast við árgang og blaðsíðutal greinar fast við tvípunkt. Ekki er getið um útgefanda tímarits. Ef  tímarit kemur út nokkrum sinnum á ári fylgir númer heftis á eftir árgangi og tvípunktur fast við númerið og blaðsíðutal (69, 4:49−56). Ef um dagblað er að ræða auðkennist ritið af dagsetningu.
 
Helga Kress. 2012. Unir auga ímynd þinni. Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Skírnir 186, I:5‒49.
Helgi Björnsson. 1938. Erla. Lesbók Morgunblaðsins, 10. apríl, bls. 107.
Kolbeinn Soffíuson. 2008. Ljóð sem neysluvara. Um Bónusljóð eftir Andra Snæ Magnason. Tímarit Máls og menningar 69, 4:49−56.
Schweitzer, Ph. 1887. Um stuðla setning og höfuðstafs í íslenzku. Tímarit Hins íslenzka bókmentafjelags 8:316‒318.
Þórður Helgason. 2013. Nýr háttur verður til. Són 11:47−85.
 
Greinar í bókum (greinasöfnum)
Á eftir höfundarnafni eða höfundarnöfnum kemur útgáfuár bókar, þá heiti greinar, nafn eða nöfn ritstjóra og auðkennið „ritstj.“ innan sviga og síðan tvípunktur fast við síðari sviga, þá heiti bókar, síðan vísun í blaðsíðutal með „bls.“ og svo blaðsíðunúmerin. Á eftir því má tilgreina ritröð og númer í henni ef vill. Loks kemur svo heiti útgefanda og útgáfustaður.
 
Vert er að vekja athygli á því að nöfn erlendra ritstjóra koma í venjulegri röð, þ.e. ættarnafn er ekki haft á undan skírnarnafni, enda er ekki verið að raða í stafrófsröð hér.
 
Haraldur Bessason. 2002. Himnastiginn og Stephan G. Baldur Hafstað og Haraldur Bessason (ritstj.): Úr manna minnum. Greinar um íslenskar þjóðsögur, bls. 235−253. Heimskringla, Reykjavík.
Lassen, Annette. 2006. Hrafnagaldur Óðins / Forspjallsljóð. Et antikvarisk digt? John McKinnell, David Ashurst og Donata Kick (ritstj.): The Fantastic in Old Norse/Icelandic Literature. Sagas and the British Isles. Preprints of the Thirteenth International Saga Conference, Durham and York, 6th – 12th August, 2006, bls. 551−560. Durham University, Durham.
 
Greinasöfn sem skráð eru á ritstjóra eða útgefanda
Ef greinasafni er raðað á nafn (eða nöfn) ritstjóra er skammstöfunin (ritstj.) sett á eftir nafni sem sýnir að ekki er um höfundarverk að ræða:
 
Jakob Benediktsson (ritsj.). 1983. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands/Mál og menning, Reykjavík.
 
Ef færslu er raðað á nafn (eða nöfn) þess sem sér um útgáfu efnis er skammstöfunin (útg.) sett á eftir nafni sem sýnir að ekki er um höfundarverk að ræða:
 
Finnur Jónsson (útg.). 1912. Den norsk-islandske skjaldedigtning. B I. Gyldendal, København.
 
Bækur eftir nafngreinda höfunda
Höfundur, útgáfuár, bókarheiti, upplýsingar um útgáfu (t.d. ritröð ef um það er að ræða og ef vill), útgefandi, útgáfustaður. Ekki er þó nauðsynlegt að geta um útgefendur mjög gamalla rita nema um fleiri en eina útgáfu hafi verið að ræða.
 
Athugið að ættarnafn erlends höfundar kemur aðeins á undan skírnarnafni þegar um fyrri (eða fyrsta) höfund er að ræða, þ.e. þann sem heimildinni er raðað eftir.
 
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2013. Íslensk bragfræði. Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Helga Kress. 1997. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Minkova, Donka. 2003. Alliteration and Sound Changes in Early English. Cambridge University Press, Cambridge.
Jonsson, Bengt R., Svale Solheim og Eva Danielson. 1978. The Types of the Scandinavian Medieval Ballad. A descriptive catalogue. Universitetsforlaget, Oslo.
 
Ritröð
Heiti ritraðar og númer bókar í henni má nefna strax á eftir heiti bókarinnar (eða heiti bókarinnar og blaðsíðutali). Helst er þörf á að geta um ritröð þegar rit hefur verið gefið út í mörgum mismunandi útgáfum, eins og fornsögur til dæmis, eða ef ritröðin er vel þekkt. Ekki er notað skáletur í heiti ritraðar.
 
Þorleifur Hauksson. 1968. Endurteknar myndir í kveðskap Bjarna Thorarensens. Studia Islandica 27. Heimspekideild Háskóla Íslands og Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
 
Heimildir sem ekki eru skráðar á höfundarnafn
Athugið að orðabókum er yfirleitt raðað eftir nafni en ekki á nafn ritstjóra.
 
Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
Egils saga Skalla-Grímssonar. 1933. Íslenzk fornrit 2. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
Sturlunga saga 1. 1988. Örnólfur Thorsson bjó til prentunar. Svart á hvítu, Reykjavík.
 
Óútgefið efni og námsritgerðir
Aðalbjörg Bragadóttir. 2009. „Þetta land skamma stund bjó mér stað. Ég er strá í þess mold. Ég er það.“ Um sérstöðu ljóðagerðar Kristjáns Einarssonar frá Djúpalæk. Ritgerð til MA.–prófs í íslenskum bókmenntum. Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
 
 
Hljóðrit
diskar, Ísmús
 
Netheimildir
 

12. Tilvísanir

Meginreglur
Þrjár meginreglur gilda um tilvísanir í heimildir í Són:
Allar heimildir sem vísað er til í grein, ritdómi eða öðru efni verður að telja í heimildaskrá. Að jafnaði gildir líka að ekki skal telja rit í heimildaskrá nema til þeirra sé vísað.
 
Í undantekningartilvikum getur komið til greina að tilfæra rit í heimildaskrá þótt ekki sé beinlínis vísað til þess á tilteknum stað í grein en þá skal geta þess með einhverjum hætti, t.d. í neðanmálsgrein, að stuðst hafi verið við ritið eða að það hafi verið einhvers konar fyrirmynd.
 
Tilvísanir í heimildir verða að vera í samræmi við heimildaskrá. Það verður m.ö.o. að vera beint samband frá tilvísun í meginmáli til flettu í heimildaskrá.
Best er að tilvísanir séu sem nákvæmastar, þ.e. að vísað sé á tiltekinn stað í heimild (tilteknar blaðsíður) þegar þess er kostur en ekki bara til rita í heild.
 
… (Helga Kress 1997:72).
Helga Kress. 1997. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
 
... eins og segir í Ljósvetninga sögu (Ljósv 1940:34).
Ljósv = Ljósvetninga saga. 1940. Íslenzk fornrit 10. Björn Sigfússon gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
 
Tilvísanir í rit nafngreindra höfunda
Tilvísanir í heimildir eru auðkenndar með nafni höfundar ritsins ásamt útgáfuári og blaðsíðutali þar sem við á. Útgáfuár og blaðsíðutal kemur jafnan innan sviga og nafn höfundar einnig nema það sé hluti af meginmáli. Tvípunktur er á milli ártals og blaðsíðutals.
 
Yfirleitt er aðeins notað eftirnafn erlendra höfunda í tilvísunum en fullt nafn íslenskra höfunda.
 
(Þórður Helgason 2010:73).
 
(Schweitzer 1887:316).
 
Athuga netheimild
 
Eðlilegt er að nota viðeigandi fallmyndir íslenskra nafna, t.d. þolfall á eftir sjá og sbr. en þágufall á eftir hjá.
 
                ... (sjá t.d. Harald Bessason 2002:237).
 
... (sbr. Þórð Helgason 2013:73).
 
... (hjá Helgu Kress 2009:40).
 
Oft er höfundarnafnið hluti textans og er það þá ekki endurtekið innan sviga:
 
Yelena Yershova segir að notkun tilvísana hafi náð hámarki í þulum Theodoru en hún vísi þó minnst í síðmiðaldaþulur en meira í annars konar þjóðlegan kveðskap (2003:134‒135).
 
Í lengri texta innan sömu efnisgreinar er stundum nóg að vísa í blaðsíðutal heimildar enda er þá alveg ljóst hver höfundurinn og ártalið er. Stundum er álitamál hvort vísa á til blaðsíðutals fyrst þegar ártal kemur fyrir eða aftan við tilvitnun eins og hér er gert.
               
Í inngangi sínum að bókinni Ljóð og laust mál (1990) með úrvali úr verkum Huldu leggja þær Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter áherslu á að Hulda eigi ríkan þátt í formbyltingu aldamótaáranna (bls. 47). Þær benda á að þótt Hulda hafni til dæmis ekki rími og stuðlun í þulum sínum noti hún hvort tveggja á frjálslegri hátt en tíðkast hafði  í hefðbundnum kveðskap; þulurnar séu í samfelldu máli og alls ekki sundurlaus spuni eins og gömlu þulurnar (bls. 35).
 
Þegar vísað er til margra höfunda innan sömu sviga getur verið til skýrleiksauka að afmarka tilvísanir til mismunandi höfunda með semikommu:
 
Um þetta atriði má víða lesa (sjá t.d. Magnús Jónsson 1947:165; Finn Sigmundsson 1956a:373 og Margréti Eggertsdóttur 2014:226‒227).
 
Orðréttar tilvitnanir, innskot og brottfellingar:
Orðréttar tilvitnanir skulu vera stafréttar og öllum leturbreytingum og öðru þess háttar haldið nákvæmlega til haga þótt vera kunni með öðrum hætti en í tímaritinu sjálfu (Són).
 
Þegar eitthvað er fellt niður í upphafi og við lok orðréttra tilvitnana skal gefa það til kynna með þremur punktum. Sé hins vegar fellt innan úr úr orðréttri tilvitnun skal það gefið til kynna með þremur punktum innan hornklofa til að sýna að þeir séu ekki hluti af sjálfri tilvitnuninni.
 
Og það má meira að segja sigla báti sínum um fjarlæg höf í skólpfötunni þó það hafi vissulega sínar afleiðingar! Ævintýrin eru þannig allt um kring í lífi ungra barna. […] En ævintýrin geta líka verið sorgleg.
 
Sé einhverju skotið inn í orðrétta tilvitnun er það afmarkað með hornklofum.
 
Nú kemur Ólöf með „Sólstöðu þuluna“ og hérna um daginn fékk ég að heyra nýja þulu eftir eina skáldkonuna enn [líklega Theodoru.]
 
Höfundar greina bera alla ábyrgð á því að rétt sé með farið í tilvitnunum.
 
Tilvísanir í handrit
Þegar vísað er til blaða í handritum er farið að viðteknum venjum um tilvísanir í númer handrits, síðustærð, síður, dálka og jafnvel línur:
 
... er ágætt dæmi um þetta (Sth. perg. 15 4to:19v).
 
Í þessu handriti kemur orðið aðeins einu sinni fyrir (AM 469 4to:12r, lína 5 í hægri dálki).
 
„Sala kotungsens kærer epter sinu“ (AM 713 4to:29v; Heimsósómi Skáld-Sveins, 15. erindi)

 

13. Útdráttur og lykilorð

Útdráttur
Ritrýndum greinum skal fylgja útdráttur (summary) á ensku og skal hann koma á eftir heimildaskrá (röðin er því grein, heimildir, útdráttur). Í honum skal aðeins stiklað á stærstu efnisatriðum og helstu niðurstöðum og skal hann að jafnaði ekki vera lengri en hálf síða í tölvuskjali.
 
Ritrýndum greinum á erlendu máli skal fylgja útdráttur á íslensku. Útdrættirnir verða aðgengilegir á Netinu.
 
Lykilorð
Lykilorð (key words) á ensku koma næst á undan enska útdrættinum, yfirleitt ekki fleiri en fimm. Þetta eru orð sem gefa vísbendingar um viðfangsefni greinarinnar og eru ætluð til að auðvelda efnisleit á Netinu.

 
14. Yfirlestur handrita og athugasemdir

Ritstjóri og ritnefndarmenn gera athugasemdir við allt efni sem berst til tímaritsins. Greinar eru jafnan sendar nafnlausar til tveggja yfirlesara (ritrýna). Yfirlesarar fá sérstakt eyðublað til viðmiðunar og skila því útfylltu til ritstjóra, ásamt viðbótarathugasemdum.
 
Ritstjóri les allar greinar og athugasemdir, metur þær og sér um að koma viðeigandi athugasemdum til höfunda, bæði athugasemdum frá yfirlesurum og sínum eigin. Þetta geta því oft orðið nokkuð ítarlegar ábendingar og þær varða yfirleitt ekki aðeins fræðilega röksemdafærslu heldur einnig framsetningu, orðalag, frágang o.s.frv. Þar kemur m.a. fram hvort grein telst birtingarhæf með litlum breytingum, hæf til birtingar eftir gagngerar breytingar eða óhæf til birtingar.
 
Athugasemdir eru að sjálfsögðu misjafnar engu síður en greinar og þess vegna er yfirleitt ekki gert ráð fyrir að höfundar fari nákvæmlega eftir þeim öllum. En þar sem athugasemdir eru jafnan gerðar með hagsmuni höfunda, lesenda og tímaritsins fyrir augum eru höfundar hvattir til að nýta sér þær sem best.
 
Þegar lokagerð handrits er skilað til ritstjóra er ætlast til þess að henni fylgi stutt yfirlit yfir helstu breytingar frá fyrri gerð og að hvaða leyti þær eru í samræmi við ábendingar yfirlesara. Hafi höfundur kosið að hafa tillögur um veigamiklar breytingar að engu skal útskýra í stuttu máli hvers vegna það var gert. Þetta auðveldar ritstjóra að meta hvort gerðar hafa verið fullnægjandi breytingar á handritinu.
 

15. Prófarkir

Höfundur fær fyrstu próförk til yfirlestrar. Hún skal lesin og leiðrétt og send um hæl til ritstjóra. Handrit er ekki sent með próförk svo að nauðsynlegt er að höfundar haldi eftir afriti í upphafi.
 
Á próförk skal aðeins gera nauðsynlegar leiðréttingar og höfundar mega búast við að verða látnir greiða þann kostnað sem hlýst af annars konar breytingum (frávikum frá samþykktri lokagerð). Um aðferðir við leiðréttingu prófarka má vísa í Íslenskan staðal, ÍST 3, Handrit og prófarkir (Iðnþróunarstofnun Íslands, Reykjavík, 1975). Þó að hann sé úr gildi fallinn sem staðall nýtist hann enn sem leiðbeiningar um vinnubrögð við prófarkalestur. Auk þess má nefna ýmsar handbækur um frágang ritaðs máls.
Óðfræðifélagið Boðn    640513-0550