Boðnarþing 11. maí 2019 – ágrip erinda

Gauti Kristmannsson (13:15–13:45)

Þýðingar án frumtexta

Í þessu erindi verður farið yfir ljóðaþýðingar á íslensku á ýmsum tímum, einkum þó síðari öldum og skoðað með hvaða hætti formið leikur hlutverk í þýðingum ljóða á íslensku. Sérstaklega verður farið yfir innleiðingu erlendra bragarhátta, hvernig þeir eru aðlagaðir að íslensku, eða ekki, og hvernig sambræðingur íslenskrar hefðar og erlendrar á sér stað í samanburði við þær aðferðir sem notaðar hafa verið á ýmsum tímum og stöðum erlendis.


Ingibjörg Þórisdóttir (13:45–14:15)

Ljótt er fagurt og fagurt ljótt Um íslenskar þýðingar á Macbeth eftir William Shakespeare

Á áttunda áratug 19. aldar þýddi Matthías Jochumsson, fyrstur íslenskra skálda, leikritið Macbeth eftir Shakespeare á íslenska tungu. Innblásturinn fékk hann frá sjálfum sér enda var leikhús enn þá fjarlægur draumur hér á landi. Frá þeim tíma hafa þrír aðrir íslenskir þýðendur spreytt sig á þessu leikriti skáldjöfursins, þessu verki sem er eitt af vinsælustu verkum Shakespeares. Verkið hefur verið sett upp átta sinnum hér á landi, á sviði hjá atvinnuleikhúsum, Nemendaleikhúsinu og Ríkisútvarpinu. Þá eru ótaldar sýningar hjá áhugaleikhópum og menntaskólasýningar. Í fyrirlestrinum verða stuttir kaflar úr verkinu skoðaðir út frá bragarhætti frumtextans og svo hvernig íslensku þýðendurnir tókust á við textann. Þýðingarnar fjórar verða bornar saman við frumtextann og spurt verður hvernig, og hvort, textinn lifir.


Soffía Auður Birgisdóttir (14:15–14:45)

Kraumandi eldvirkni: Bæling og sköpunarkraftur. Um ljóð Emily Dickinson, „My Life has stood – a Loaded Gun –“.

Í fyrirlestrinum mun Soffía Auður fjalla um þýðingu Hallbergs Hallmundssonar, sem og sína eigin þýðingu, á einu þekktasta ljóði bandarísku skáldkonunnar Emily Dickinson (1830–1186), „My Life has stood – a Loaded Gun“ (#754). Ljóðið — sem er í sex erindum — verður greint og ræddar mismunandi túlkanir á því í gegnum tíðina. Sérstaklega verður fjallað um hvernig efni ljóðsins og myndmál tengist þema og myndmáli sem gengur sem rauður þráður í gegnum ljóðlist Emily Dickinson. Þar sækir skáldið til jarðfræði, nánar tiltekið til orðræðu um eldvirkni og eldgos. Viðfangsefnið nálgast Soffía Auður út frá sjónarhóli bókmenntafræða, þýðingarfræða og ritlistar.


Helgi Skúli Kjartansson (15:15–15:45)

Brageyra – tilsögn eða tilfinning?

Hugtakið „brageyra“ táknar tilfinningu fyrir bragreglum, oftast notað um reglur stuðlasetningar, og hafa bragfræðingar í seinni tíð leitast við að gefa því fræðilegt inntak. Fyrirlesari ber það saman við málkennd og telur þann samanburð aðeins gildan með vissum fyrirvörum. Hvort tveggja mótast af samspili þess algenga (sem hljómar kunnuglega) og þess reglubundna (sem hljómar eðlilega), en jafnframt af tilsögn sé henni til að dreifa. Jafnframt eigin reynslu fyrirlesara tekur hann dæmi af stuðlasetningu höfunda sem styðjast ekki við reglur heldur fara eftir brageyra sínu einu, mismunandi næmu. Niðurstaða hans er sú að tilsagnarlaust brageyra muni sjaldnast nægja til að ná valdi á viðurkenndum reglum íslenskrar stuðlasetningar.


Úlfar Bragason (15:45–16:15)

Sigurbjörg

Á Landsbókasafni undir safnmarkinu Lbs. 4369, 4to er handrit sem sagt er í skrá safnins að sé ræða, sem Sigurjón Friðjónsson á Sandi í Aðaldal (1867–1950) „flutti við jarðarför Sigurbjargar, dóttur sinnar, er lézt á fyrsta ári.“ Skv. Íslendingabók fæddist Sigurbjörg Sigurjónsdóttir 17. maí 1895 og lést 17. september sama ár aðeins fjögurra mánaða gömul. Stúlkan var ekki skírð og eins og Erlingur Friðjónsson, hálfbróðir Sigurjóns, sagði í æviminningum sínum, Fyrir aldamót, skoraðist Grenjaðarstaðarprestur undan því að jarðsyngja hana. Af þeirri ástæðu flutti Sigurjón sjálfur kveðjuorð við kistu barnsins. En þegar þessi kveðjuorð frá 1895 eru skoðuð kemur í ljós að þau eru ekki ræða heldur prósaljóð — sem viðstaddir hafa kallað ræðu af því prósaljóð voru algjör nýlunda fyrir kirkjugestum í Nesi í Aðaldal haustið 1895. Í fyrirlestinum verður fjallað um prósaljóðið, form þess og efni og tilurð þess. Löngu seinna gaf Sigurjón út bókina Skriftamál einsetumannsins (1929) sem einnig má flokka undir prósaljóð en kveðjan yfir Sigurbjörgu er fyrsta tilraun hans í þá veru svo að vitað sé.


Þórhallur Eyþórsson (16:15–16:45)

Kuhn, Haukur og aldur eddukvæða

Á fjórða áratug 20. aldar setti þýski norrænufræðingurinn Hans Kuhn fram kenningar um suðurgermanskan uppruna ýmissa Eddukvæða, svokallaðra Fremdstofflieder (sjá einkum Kuhn 1933). Kuhn taldi meðal annars vera mun á „bundnum“ setningum (sem hefjast á auka- eða aðaltengingu) og „óbundnum“ setningum (þ.e. ótengdum aðalsetningum) að því er snertir brag- og setningarstöðu sagnar í kveðskapnum. Í bundnum setningum kemur sögn í persónuhætti oft fyrir aftarlega og brýtur þannig „S2“-regluna sem gildir í forníslenskum lausamálstextum og kveður á um skyldubundna stöðu slíkra sagna í öðru sæti. Í óbundum setningum er venjulega haldið fast við „S2“-regluna en í kvæðum undir fornyrðislagi kemur sögnin þó stöku sinnum fyrir aftarlega. Kuhn skýrði þessi frávik sem birtingarmynd suðurgermanskra áhrifa í norrænum kveðskap.

Haukur Þorgeirsson tekst á við kenningar Kuhns í grein frá 2012, sem er áhugavert innlegg til skilnings á sambandi bragfræði og setningafræði í norrænu á elstu tíð (sjá einnig Kristján Árnason 2002). Haukur ályktar að ofangreind setningafræðileg einkenni séu forn arfur úr frumnorrænu fremur en suðurgermönsk áhrif. Þar er einkum stuðst við tölfræðilega fylgni á milli tveggja breytna: brota á „S2“-reglunni annars vegar og notkunar fylliorðsins (of/um) hins vegar. Þótt fallast megi á ákveðin atriði í gagnrýni á kenningar Kuhns er hinn tölfræðilegi rökstuðningur Hauks fyrir norrænum uppruna brota á „S2“-reglunni að mínum dómi ekki fyllilega sannfærandi. Þannig er fylliorðið algengt í kvæðum sem virðast að öðru leyti ekki sérstaklega fornleg; á hinn bóginn er lítið um fylliorð í sumum kvæðum sem oft eru talin fornleg af öðrum ástæðum. Í fyrirlestrinum mun ég reifa helstu atriðin í kenningum þeirra Hans Kuhns og Hauks Þorgeirssonar og sýna fram á styrkleika og veikleika hvorrar um sig. Niðurstaðan er sú að hvorug kenningin standist sem slík heldur sé þörf á nýrri nálgun á þær staðreyndir sem þær byggja á.