Þrjár rúsínur í 2019-pylsuendanum

Árið 2019 var metár í útgáfu íslenskra ljóðabóka. Í Són 17 fjölluðum við um 30 bækur en það var ekki einu sinni helmingurinn af því sem út kom. Margar bækur sem gaman hefði verið að fjalla um voru því ekki með. Hér langaði mig aðeins að minnast stuttlega á þrjár bækur sem ég kunni sérstaklega að meta.

Brynjólfur Þorsteinsson. Þetta er ekki bílastæði. Una útgáfuhús.

Brynjólfur fékk Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2019 fyrir magnað ljóð sem hefst á orðunum „allir hrafnar eru gat“ (bls. 11 í bókinni). Með þessari bók sýnir hann að verðlaunin voru enginn grís. Kaflaheiti bókarinnar eru heiti vetrarmánaða: gormánuður, ýlir, mörsugur. Hér eru ekki rómantískar vetrarmyndir með hvítum snjó og tifandi stjörnum heldur fremur rigningarvetur í borginni og „snjórinn í vegkantinum er svartur / eins og maskari sem hefur runnið til“ (bls. 39). Sérstaklega held ég upp á ljóðið Í strætó númer eitt (bls. 25):

tröllið var þungstígt
í morgun
á leið til vinnu
undir brúna

um það vitna sporin í snjónum

fæturnir drógu línur
plógför kulnunar í starfi

mánadagur
hækkandi sól

og garnirnar í ásnum eru fullar

váboði
samkvæmt kerlingabókum

svifrykið
eins og þokumistur
í útlensku ævintýri
sem endar ekki vel

Ljóð Brynjólfs einkennast af súrrealískri hugmyndaauðgi en eru jafnframt öguð og fáguð. Bókaforlagið Una gaf út tvær ljóðabækur í ár – hin er Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur. Þetta eru tvær af bestu og áhugaverðustu bókum ársins.

Tove Jansson. Þórarinn Eldjárn þýddi. Hver vill hugga krílið? Mál og menning.

Þetta er falleg bók sem auðvelt er að þykja vænt um. Sagan er um feimið kríli sem ferðast óttaslegið í gegnum kynjaveröld, fyrst á stöðugum flótta. Þegar krílið fær spurnir af annarri feiminni smáveru sem er í vanda stödd færist það allt í aukana og bítur jafnvel sjálfa morruna í skottið þegar með þarf.
Hér er sýnishorn af þýðingunni:

Bréfinu stakk krílið vel í vasann,
það var hans fyrsta bréf og svo auk þess
frá stelpu. Oft og ótal sinnum las hann
það ánægður og varð um leið svo hress,
svo klár og fær og kjarkmikill við það
að kalt en gott hann fékk sér tunglskinsbað

Svona er þetta á frummálinu:

Och knyttet gömde brevet i sin ficka,
det första brev han nånsin hade fått,
dessutom var det skrivet av en flicka
och detta gjorde knyttet mycket gott.
Han blev med ens så modig, stark och glad,
han tog ett kallt, men lyckligt månskensbad

Þegar kvæði fyrir börn eru þýdd á íslensku verður textinn oft svolítið þyngri en á frummálinu. Þórarni tekst þó að mestu að halda þessum vanda í skefjum. Skemmtilegt er að sjá þegar rímið úr frumtextanum gengur aftur í þýðingunni, eins og í þessum orðum sem fanga boðskap sögunnar:

En hver vill hugga krílið, við hann segja sannindin:
Að sá sem alltaf flýr í burt hann eignast aldrei vin.

Men vem ska trösta knyttet med att säga sanningen:
om du bara springer undan så får du ingen vän.

Textinn er fallegur en myndirnar eru þó fallegri.

Gunnar J. Straumland. Höfuðstafur. Sæmundur.

Eins og Tove Jansson er Gunnar Straumland höfundur sem tekst bæði á við ljóðlist og myndlist. Hann er fimur við háttbundinn kveðskap og yrkir meðal annars um samfélagið, ástina og líðandi stund. Best þykja mér náttúruljóð Gunnars og hann yrkir ekki síst um fugla, meðal annars einlæg og falleg ljóð um keldusvín og jaðrakan (bls. 41–42). Ég er ekki frá því að Gunnari takist líka best upp í málaralistinni þegar fuglar eru viðfangsefnið.

Skemmtilegasta kvæði bókarinnar þykir mér vera Tíðindi úr syndaflóði (bls. 59):

Í svölu regni í sveitinni við svömluðum.
Sæhestana söðluðum
og sundriðum á túnunum.

Sjóbirtingur synti á engi, sautján pund!
Með bros á vör í birkilund
bleikja hrygndi á vota grund.

Sá ég glitta í sellátur við sauðakró.
Marbendill við mosató
mitt í okkar garði hló.

Fossar regnið, flæða tún og fjallaskörð.
Nýja á ég nykrahjörð,
nú er drukkin Móðir jörð.

Bráðum kemur nýtt ár með nýjum ljóðabókum. – Haukur Þorgeirsson