SÓN 18

Són 18 er komin út!

Tímaritið berst áskrifendum á næstu dögum en það má einnig nálgast í lausasölu hjá Bóksölu stúdenta.

Að þessu sinni eru tvær ritrýndar greinar í heftinu. Stefán Snævarr skrifar um ljóð Sigurðar Pálssonar í ljósi tilvistarspekinnar og heimspeki Stanley Cavells, en Hildur Ýr Ísberg fjallar um margræðni Skaða í Eddukvæðum, Snorra-Eddu og Heimskringlu.

Óðflugur og umræðugreinar eru þrjár. Atli Ingólfsson veltir fyrir sér sambandi bragar og tónlistar, Atli Harðarson skrifar um gríska ljóðskáldið Aristóteles Valaoritis og kvæðið um Lýð gamla og byssuna hans og loks fjallar Heimir Pálsson um kvæði Gríms Thomsens, Á Sprengisandi.

Mikill fengur er að þeim ljóðum og þýðingum sem birtast að þessu sinni. Arndís Þórarinsdóttir, Gunnar J. Straumland, Hanna Óladóttir og Ingólfur Eiríksson eiga öll frumort ljóð í heftinu, en finna má þýðingar á ljóðum Hermanns Hesse, Pierre de Ronsard og grænhöfðeysku skáldkonunnar Glóriu Sofiu. Sónarskáldið í ár er Kristín Eiríksdóttir sem frumbirtir glænýtt ljóð í Són 18.

Að venju inniheldur heftið svo yfirgripsmikla ritdóma og umfjallanir um ljóðabækur ársins, en að þessu sinni var fjallað um 13 bækur sem komu út á árinu 2020.

Loks vill ritstjórn Sónar óska lesendum sínum og velunnurum gleðilegs árs, með þökk fyrir stuðninginn á liðnu ári!