SÓN 19

Són 19 er komin út og ratar til áskrifenda sinna á næstu dögum. Són fæst einnig í lausasölu hjá Bóksölu stúdenta.

Heftið inniheldur að þessu sinni eina ritrýnda rannsóknargrein þar sem Haukur Þorgeirsson fjallar um rímur, aldur þeirra og höfunda. Einnig eru birtar fjórar umræðugreinar og spanna þær breitt tímasvið frá fornöld til samtíma. Rósa Þorsteinsdóttir fjallar um kveðskap Bjarna Sveinssonar (1813–1889), Ægir Þór Jähnke skrifar um Nóbelsskáldið Louise Glück og list hennar, Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir fjallar um latnesk ljóðabréf eftir rómversku skáldin Sextus Propertius og Publius Ovidius Naso og loks birta Elínrós Þorkelsdóttir og Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir grein um hvernig megi nota ljóð til kennslu í íslensku sem öðru máli, ásamt frumsömdu kennsluefni.

Venju samkvæmt frumbirtir Són ljóð og þýðingar. Frumort ljóð eiga Sigurlín Hermannsdóttir, Tómas Ævar Ólafsson og Stefán Snævarr en finna má nýjar þýðingar Hannesar Péturssonar á ljóði serbneska skáldsins Miodrags Pavlović, Atla Ingólfssonar á ljóði Oceans Vuongs og Erlends S. Eyfjörðs á ljóði Konstantinosar P. Kavafis.

Eins og síðustu ár birtir Són vandaða ritdóma um valdar ljóðabækur sem komu út á árinu 2021.

Loks er Són mikil ánægja að frumbirta glænýtt ljóð eftir Guðrúnu Hannesdóttur sem er Sónarskáldið í ár.

Kápumynd gerði Margrét Rut Eddudóttir.